7.4.2023 | 19:53
Skilyrðislaus trú
Þegar ég var lítil stelpa hékk þessi mynd af Jesú fyrir ofan rúmið mitt. Mér þótti vænt um hana því mér leið eins og einhver væri að vaka yfir mér og passa mig í næturmyrkrinu. Á hverju kvöldi spennti ég greipar og bað Jesú um að vernda fólkið mitt í kringum mig. Ég varð ekki róleg fyrr en ég var búin að telja upp alla þá sem Jesú mátti alls ekki missa af eða gleyma.
Þessi barnatrú veitti mér öryggi. Ég var ekki ein, því bæði skaparinn og sonur hans og voru hjá mér í svefnherbergi undir súð í Garðabænum. Það var ekki hægt að hafa það neitt betra.
Á fullorðinsárunum færðist trúin yfir í heimspekilegar vangaveltur og sögulegan rannsóknaleiðangur á raunmæti kristinnar trúar. Það hafði fossað blóð í frelsarans slóð, og gerir enn. Hafði Jesú yfir höfuð verið til?
Við biblíulestur blasti við mér harðákveðinn maður, en ekki einhver blíður hirðir, sem sagði fólki óhikað til syndanna með kjarnyrtum, réttmætum orðasendingum. Sem handhafi sannleikans var hann staðfastur í orði og ógn gagnvart móðgunarkenndu og hégómafullu fólki, sem heimtaði að hann yrði krossfestur. Sem úr varð. Margt bendir til að hann hafi í raun verið til, en það er líka margt sem bendir til að sögurnar af honum séu svolítið ýktar.
Á myndinni sést hann afmyndaður á Ólífufjallinu á hæðinni fyrir ofan Jerúsalem, kvöldið áður en hann varð krossfestur. Þessi staður er ennþá til, þótt þar séu ekki lengur nein ólífutré. Hann á að hafa verið þungt hugsi því hann vissi að daginn eftir yrði hann framseldur og dæmdur af Pontíusi Pílatusi. Engan hafði hann þó við hlið sér þessa nótt, til halds og trausts. Hann var einn í þjáningu sinni. Hann bað því almættið um að styrkja sig. Verði þinn vilji, ekki minn.
Ekki vissi ég að Jesú á myndinni minni kveið fyrir örlögum sínum, þegar ég var að spenna greiparnar gagnvart hinum æðrulausa lausnara.
Kristni sprettur úr menningararfi gyðinga. En gamla testamentið er töluvert eldra og getur hafa sprottið úr frummenningu mannkyns í Súmer, sem síðar varð suður-Mesapótamía og heitir í dag Írak. Líklegt þykir að tilurð gamla testamentisins, sem geymir sögu mannkyns, sé sambland af frásögnum frá bæði Kanaan og Babýlon og sem á að hafa mótast á bronsöld. Löngu eftir Krist varð svo Islam til, sem sprettur einnig úr þessum aldaforna menningararfi, með keimlíkum vitnisburðum, en þó með öðrum, mjög frábrugðnum, áherslum.
Ýmsar kenningar eru um að Jesú hafi ferðast til bæði Egyptalands og jafnvel lengra til austurs. Hann hafi numið allskyns fræði og gengið einn í eyðimörkinni í andlegum tilgangi. Hann hafi farið sínar eigin leiðir í andlegri iðkun. Í kóraninum er hann talinn heilagur spámaður.
Ég áttaði mig á að það er lítið vestrænt við vin minn Jesú, upprunalega. Kristnin mín er fáguð, nútíma útgáfa sem mótast hefur ekki síst af íslensku samfélagi. Ég fór að líta á kristindóminn sem samfélagslega afurð, stofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki. Fólk fæðist og deyr, og í millitíðinni giftir það sig eða gefur börnum nöfn. Kirkjur eru táknmynd heilags rýmis þar sem fólki gefst kostur á að upplifa kyrrð og fegurð. Tengingu við Guð. En ég er þó viss um að almættið haldi til allstaðar og ekki bara í kirkjum.
Ég hef haldið áfram að vera kristin, á barnatrúna mína enn og er þakklát fyrir það hvernig hún mótaði mig. Hún kenndi mér að sönn trú er skilyrðislaus og að það er manninum hollt að trúa á eitthvað sem er honum æðra, sama hvert það er.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.