Færsluflokkur: Bloggar

Hin dularfullu umframdauðsföll

Hvað olli því að umframdauðsföll stóðu í stað í Svíþjóð eftir fjöldabólusetningar? Í flestum öðrum löndum ruku dánartölur upp. Þar með talið á Íslandi.

Á Íslandi létust samkvæmt dánarmeinaskrá 30 Íslendingar með covid-greiningu árið 2020. Árið eftir, 2021, létust aðeins 6 manns med covid-greiningu yfir allt árið. Árið 2022 létust hins vegar yfir 200 manns með covid-greiningu á Íslandi, þrátt fyrir margfaldar bólusetningar þegar hér var komið við sögu.

Svíþjóð var með allra lægstu dánartíðnina í allri Evrópu í 1,5 ár samfleytt og næst lægst í samtals tvö ár, bæði 2021 og 2022, samkvæmt greiningu sem birtist í Læknatímaritinu Dagens Medicin í september 2022.

Karin Modig, faraldursfræðingur og rannsóknarkona við Karolinska Institutet í Svíþjóð, hefur rýnt í tölurnar og veltir niðurstöðunum fyrir sér. Í viðtali við dagblaðið Dagens Nyheter í september 2022 segir hún að sér þyki það undarlegt að fullbólusettar þjóðir hafi mælst með margfallt fleiri dauðsföll vegna covid en ekki Svíþjóð, þrátt fyrir bólusetningu.

„Hins vegar voru nágrannaþjóðir okkar með hámarks bólusetningarhlutfall hjá öldruðum og hrumum einstaklingum, þannig að þar hefðu ekki átt að sjást nein dánartilvik vegna covid fyrst að við höfum ekki verið að sjá það í neinum mæli,“ segir Karin Modig.

Upphaflega voru Svíar gagnrýndir harðlega fyrir að „fórna gamla fólkinu sínu“ og menn héldu því fram að vegna sóttvarnarstefnu Svía myndu þeir vera með hæstu dánartíðnina í allri Evrópu í faraldrinum. En þegar tölurnar voru teknar saman yfir umframdauðsföll sl. þrjú ár kom annað í ljós. Dánartölurnar ruku upp allsstaðar í Evrópu, nema í Svíþjóð.

Þýðir það að flestir hafi týnt lífi í upphafi faraldursins í Svíþjóð og þess vegna hafi fáir látist síðar? Það útskýrir reyndar ekki hvers vegna Svíar mælast með lægstu tíðnina á umframdauðsföllum í heildina. Það útskýrir ekki af hverju aldraðir og hrumir einstaklingar eru að látast úr covid erlendis þrátt fyrir ítrekaðar bólusetningar. En það gæti útskýrt að róttækar sóttvarnaraðgerðir komu hart niður á samfélagsþegnum sem getur hafa haft í för með sér heilsuleysi.

Ástæðan fyrir því að umframdauðsföll eru greind, en ekki eingöngu covid-dauðsföll, er vegna þess hversu illmælanlegt það er að styðja sig við fjölda greiningatilfella eingöngu þar sem þær upplýsingar liggja ekki fyrir hendi. Eins er ástæða dánartilvika stundum á gráu svæði þegar litið er til bæði undirliggjandi sjúkdóma og covid. Svíar voru ekki með skipulagða smitrakningu nema að mjög takmörkuðu leyti, sem tók eingöngu mið af einstaklingsframtaki íbúa en ekki kerfisbundnu átaki. Það gefur skakka mynd af greiningarhlutfallinu. 

Það er staðfest að fólkið sem lést í upphafi voru aldraðir og hrumir einstaklingar sem voru illa haldnir af veikindum, jafnvel deyjandi, rétt áður en þeir fengu Covid-19. Flestir þeirra látnu höfðu dvalið á sjúkrastofnunum eða elliheimilum. Talið er að mörg þeirra hefðu andast á innan við ári síðar, ef covid hefði ekki gengið yfir, samkvæmt Fredrik Charpentier Ljungqvist, höfundar bókarinnar ”Corona – vår tids pandemi i ett historiskt perspektiv”.

Nágrannalöndin, Noregur og Svíþjóð, eru að koma mjög svipað út úr tölfræðinni sem sýnir umframdauðsföll en þjóðirnar tóku ekki eins á faraldrinum og beittu ekki sömu sóttvarnaraðgerðum. Svíþjóð var, eins og þekkt er orðið, harðlega gagnrýnt fyrir að hafa samfélagið opið og starfrækt án grímuskyldu, nema innan heilbrigðiskerfisins. Engin skipulögð mitrakning var að ráði eða sóttkví með eftirfylgni. Almenningi var alfarið treyst fyrir því að taka viðeigandi ákvarðanir. 

Sænskur prófessor að nafni Martin Kulldorff, sem starfaði í 20 ár við Harvard í Bandaríkjunum, varpaði snemma fram sínu sérfræðilega áliti að veiran væri nánast hættulaus börnum og að náttúrulegt ónæmi gegn covid-19 væri öflugra heldur en sprautuónæmi. Hann fékk litla áheyrn fyrir þessar niðurstöður sínar og var auk þess þaggaður í kjölfarið á hinum ýmsu samskiptavefjum. Í dag er orðið ljóst að hann hafði á réttu að standa og að hægt hefði verið að koma í veg fyrir stórfelldan samfélagslegan skaða ef farið hefði verið eftir hans ráðum. Martin Kulldorff hefur í kjölfarið á þögguninni komið upp fræðslusetri í Hilldale Collage, ásamt Dr Scott Atlas og Dr Jay Bhattacharya, sem gengur gagngert út á að sporna við vísindalegu misferli. „We need to save science“ var sagt á stofnfundi fræðslusetursins

En sá sem hefur sætt hvað mestri gagnrýni er sóttvarnarlæknir Svía, Anders Tegnell, en hann þótti afar staðfastur í sannfæringu sinni, og fyrri reynslu, á því hvernig ætti að takast á við faraldurinn. Segja má að hann hafi staðið af sér einhverja mestu pressu og fordæmingu á heimsvísu þegar hann tók sjálfstæðar ákvarðanir þvert gegn ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.
Í viðtölum sagðist hann hafa markað sóttvarnarstefnu út frá aðgengilegum tölfræðilegum upplýsingum, þeim sömu og umheimurinn hafði við höndina. Í viðtali við BBC árið 2020 velti hann því fyrir sér á hvaða rökum sóttvarnaraðgerðaráætlanir umheimsins væru eiginlega byggðar.

Sóttvarnaraðgerðirnar í Svíþjóð voru einhverjar þær vægustu í öllum heiminum. Lægsta tíðni á umframdauðsföllum í Evrópu sl. þrjú ár sýnir það svart á hvítu að Svíar tóku réttar ákvarðanir í faraldrinum og tókst að komast hjá því að valda stórfelldu samfélagslegu tjóni, sem bitnar hvað mest á börnum, ungmennum og atvinnulífinu.

En hvers vegna umframdauðsföll jukust hjá fullbólusettum þjóðum mun vonandi heiðarleg og vísindaleg nálgun ná að útskýra með tímanum. 

 

Greinin birtist upphaflega á krossgotur.is

Heimildir:

Dagens Medicin september 2022:

https://www.dagensmedicin.se/specialistomraden/infektion/sveriges-overdodlighet-lagst-i-europa/

Anders Tegnell, sóttvarnarlæknir Svía, viðtal við BBC

 

Kuldorff segir náttúrulegt ónæmi sterkara en sprautuónæmi, í myndbandinu (Censorship of science)

Stofnfundur á Hillsdale College


Þegar dýrlingar reynast vera tálmandi karlspungar

Mér hefur alltaf fundist það svolítið merkilegt að Dalai Lama hafi nánast verið settur í guðatölu. Hef sjálf ekki lesið bækurnar hans vegna þess að mér hefur ekki fundist neitt heillandi eða heilagt við hann. Nú hefur dýrlingurinn svokallaði verið staðinn af afar ósæmilegu athæfi þar sem hann bað ungan strák um að sjúga á sér tunguna. Athæfið náðist á myndband og dreifist það nú víða. Viðbjóðinn má sjá hér neðar.

Af hverju stekkur enginn upp á svið til að bjarga
vesalings barninu úr þessum hræðilegu aðstæðum sem hann vill augljóslega ekkert vera í? Þetta er ógeðslegt og þetta er að gera mig brjálaða.

Eins er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig áhorfendurnir bregðast við þessari tálmun karlpungsins gagnvart varnarlausu barni. Eru allir á smjörsýru þarna eða hvað? Það heyrist lófatak þegar dólgurinn er búinn að eyða óhóflega löngum tíma í að reyna að kyssa strákinn á munninn. Hann heldur einmitt áfram lengra, eftir að hafa verið fagnað af meðvirku, trúarræktu, áhorfendunum. Það er þá sem hann segir "Suck my tongue" og rekur úr sér níræða tungu framan í saklaust kúgað barn. Ég á ekki til nægilegan orðaforða til að lýsa því hvað þetta er viðurstyggilegt í alla staði.

Myndbandsupptökuna má nálgast hér:

Myndbandsupptaka af níræðum perra að reyna að fara í sleik við barn.


mbl.is Dalai Lama bað dreng um að sjúga á sér tunguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilyrðislaus trú

Þegar ég var lítil stelpa hékk þessi mynd af Jesú fyrir ofan rúmið mitt. Mér þótti vænt um hana því mér leið eins og einhver væri að vaka yfir mér og passa mig í næturmyrkrinu. Á hverju kvöldi spennti ég greipar og bað Jesú um að vernda fólkið mitt í kringJesúsum mig. Ég varð ekki róleg fyrr en ég var búin að telja upp alla þá sem Jesú mátti alls ekki missa af eða gleyma.

Þessi barnatrú veitti mér öryggi. Ég var ekki ein, því bæði skaparinn og sonur hans og voru hjá mér í svefnherbergi undir súð í Garðabænum. Það var ekki hægt að hafa það neitt betra.

Á fullorðinsárunum færðist trúin yfir í heimspekilegar vangaveltur og sögulegan rannsóknaleiðangur á raunmæti kristinnar trúar. Það hafði fossað blóð í frelsarans slóð, og gerir enn. Hafði Jesú yfir höfuð verið til?

Við biblíulestur blasti við mér harðákveðinn maður, en ekki einhver blíður hirðir, sem sagði fólki óhikað til syndanna með kjarnyrtum, réttmætum orðasendingum. Sem handhafi sannleikans var hann staðfastur í orði og ógn gagnvart móðgunarkenndu og hégómafullu fólki, sem heimtaði að hann yrði krossfestur. Sem úr varð. Margt bendir til að hann hafi í raun verið til, en það er líka margt sem bendir til að sögurnar af honum séu svolítið ýktar.

Á myndinni sést hann afmyndaður á Ólífufjallinu á hæðinni fyrir ofan Jerúsalem, kvöldið áður en hann varð krossfestur. Þessi staður er ennþá til, þótt þar séu ekki lengur nein ólífutré. Hann á að hafa verið þungt hugsi því hann vissi að daginn eftir yrði hann framseldur og dæmdur af Pontíusi Pílatusi. Engan hafði hann þó við hlið sér þessa nótt, til halds og trausts. Hann var einn í þjáningu sinni. Hann bað því almættið um að styrkja sig. “Verði þinn vilji, ekki minn“.

Ekki vissi ég að Jesú á myndinni minni kveið fyrir örlögum sínum, þegar ég var að spenna greiparnar gagnvart hinum æðrulausa lausnara. 

Kristni sprettur úr menningararfi gyðinga. En gamla testamentið er töluvert eldra og getur hafa sprottið úr frummenningu mannkyns í Súmer, sem síðar varð suður-Mesapótamía og heitir í dag Írak. Líklegt þykir að tilurð gamla testamentisins, sem geymir sögu mannkyns, sé sambland af frásögnum frá bæði Kanaan og Babýlon og sem á að hafa mótast á bronsöld. Löngu eftir Krist varð svo Islam til, sem sprettur einnig úr þessum aldaforna menningararfi, með keimlíkum vitnisburðum, en þó með öðrum, mjög frábrugðnum, áherslum.

Ýmsar kenningar eru um að Jesú hafi ferðast til bæði Egyptalands og jafnvel lengra til austurs. Hann hafi numið allskyns fræði og gengið einn í eyðimörkinni í andlegum tilgangi. Hann hafi farið sínar eigin leiðir í andlegri iðkun. Í kóraninum er hann talinn heilagur spámaður.

Ég áttaði mig á að það er lítið vestrænt við vin minn Jesú, upprunalega. Kristnin mín er fáguð, nútíma útgáfa sem mótast hefur ekki síst af íslensku samfélagi. Ég fór að líta á kristindóminn sem samfélagslega afurð, stofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki. Fólk fæðist og deyr, og í millitíðinni giftir það sig eða gefur börnum nöfn. Kirkjur eru táknmynd heilags rýmis þar sem fólki gefst kostur á að upplifa kyrrð og fegurð. Tengingu við Guð. En ég er þó viss um að almættið haldi til allstaðar og ekki bara í kirkjum.

Ég hef haldið áfram að vera kristin, á barnatrúna mína enn og er þakklát fyrir það hvernig hún mótaði mig. Hún kenndi mér að sönn trú er skilyrðislaus og að það er manninum hollt að trúa á eitthvað sem er honum æðra, sama hvert það er.


Við endalokin

Hann var kominn yfir sjötugt, búsettur í fjarlægu landi. Eitt sinn hafði hann lært þetta framandi tungumál og talað það við konuna sína. Árin liðu. En hann var of erfiður, of þrjóskur. Hún fór og hann varð einn eftir, kominn á eftirlaun. Í framandi landinu. Lífið tók að fölna, þrótturinn að hverfa. Limirnir að dofna. Hann gleymdi þessu framandi tungumáli og varð eyland í landinu. Svo hitti hann annan landa sinn. Hann ljómaði upp. Hann gat talað. Hann gat sungið. Hann gat kveðið vísur. Hann sagði ævisöguna og var stoltur af sjómennskunni. 50 ár á sjó. Öll störf unnin. Allar hafnir sóttar. Þrótturinn sneri aftur. Hjartað hamaðist við. Ástin á fósturjörðinni. Það síðasta sem varðveitist fram að síðasta andardrættinum. Orðin sem búa í hjartanu. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband